Erlent

Obama biður fólk um að gefa Trump tækifæri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Obama segir að þrátt fyrir að hafa áhyggjur af forsetatíð Trump, þurfi jafnframt að gefa honum tækifæri til þess að aðlagast.
Obama segir að þrátt fyrir að hafa áhyggjur af forsetatíð Trump, þurfi jafnframt að gefa honum tækifæri til þess að aðlagast. vísir/getty
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir engan vafa á öðru en að hann hafi áhyggjur af forsetatíð nýkjörins forseta landsins, Donalds Trump. Hins vegar þurfi að virða lýðræðið og að gefa þurfi Trump tækifæri til þess að aðlagast nýju starfi.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í Hvíta húsinu í kvöld, en um var að ræða fyrsta blaðamannafundinn sem haldinn er í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þar sem Donald Trump bar sigur úr býtum.

Obama hvatti arftaka sinn til þess að sýna fram á að hann ætli sér að sameina þjóðina, en sagðist jafnframt sjálfur trúa því að Trump muni gera sitt besta. Nú þurfi Trump að aðlagast þeim starfsskyldum sem fylgi forsetaembættinu.

Obama neitaði hins vegar að svara spurningum um ráðningar og útnefningar Trump, sem sumar hverjar hafa verið umdeildar. Sagði hann það ekki við hæfi, enda þurfi stjórnarskiptin að ganga auðveldlega.

Trump er þegar farinn að huga að næstu skrefum, en í dag ræddi hann símleiðis við Vladimír Pútín Rússlandsforseta þar sem þeir ákváðu að bæta samskipti ríkjanna tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×