Sport

Sextíu ára afmæli silfurstökksins fagnað í Laugardalnum

vísir/stefán
Hinir árlegu Silfurleikar ÍR í frjálsum íþróttum verða haldnir í 21. sinn á laugardaginn 19. nóvember, í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

Leikarnir eru haldnir til heiðurs stórafreki Vilhjálms Einarssonar frá Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956, þegar hann vann til silfurverðlauna í þrístökki.

Í ár eru 60 ár frá því Vilhjálmur vann silfrið, sem voru fyrstu verðlaun Íslendings á Ólympíuleikum. Með stökkinu, sem var 16,25 metrar setti hann ekki einungis Íslands- og Norðurlandamet heldur líka Ólympíumet sem stóð þar til Brasilíumaðurinn da Silva sló það tveimur klukkutímum síðar. Vilhjálmur á enn Íslandsmetið í þrístökki.

Silfurleikarnir hafa fest sig rækilega í sessi sem eitt stærsta og vinsælasta frjálsíþróttamót landsins. Leikana sækir mikill fjölda keppenda 17 ára og yngri frá mörgum félögum alls staðar af landinu.

Keppt er í fjölþraut barna 7 ára og yngri og 8-9 ára, fjórþraut 10-11 ára og í hefðbundnum greinum frjálsra íþrótta í aldursflokkum 12-17 ára. Þrístökki er gert sérstaklega hátt undir höfði á Silfurleikum.

Keppni á mótinu hefst kl. 9 með keppni yngstu barnanna en aðrir aldursflokkar hefja keppni koll af kolli eftir því sem líður á daginn. Keppni stendur til klukkan 18:00.

Frjálsíþróttadeild ÍR heldur Silfurleika ÍR og um 100 sjálfboðaliðar starfa á leikunum.

Tímaseðil mótsins og frekari upplýsingar er að finna hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×