Körfubolti

LeBron James veit ekki hvort hann væri til í að hitta Trump í Hvíta húsinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Barack Obama í Hvíta húsinu.
LeBron James og Barack Obama í Hvíta húsinu. Vísir/Getty
NBA-meistararnir á hverju ári fá alltaf að heimsækja Bandaríkjaforseta í Hvíta húsið í Washington á næsta tímabili á eftir en það gæti mögulega breyst í valdatíð Donald Trump.

Þetta er áratuga hefð og nær einnig til meistaraliða í öðrum atvinnuboltagreinum í Bandaríkjunum.

Margir íþróttamenn eru langt frá því að vera hrifnir af framkomu og stefnumálum nýja forsetans og það gæti án efa haft áhrif á þessa hefð ef Trump heldur áfram á þeirri braut sem hann var á í kosningarbaráttunni.

LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers voru síðustu NBA-meistararnir til að heimsækja Barack Obama í Hvíta húsið en Donald Trump mun taka við af Obama á næsta ári.

LeBron James studdi Hillary Clinton dyggilega í forsetakosningunum og hann er lítill aðdáandi Trump. Bandarískir blaðamann notuðu tækifærið og spurðu LeBron James út í heimsóknir í Hvíta húsið á meðan Trump væri forseti.

„Ég veit ekki hvort að ég færi til hans. Ég verð bara að fara yfir þá brú þegar að því kemur," sagði LeBron James við Ohio.com en hann þarf náttúrulega fyrst að vinna NBA-titilinn til að koma sér í slíka aðstöðu.

„Ég tæki því fagnandi að þurfa að standa frammi fyrir þeirri ákvörðun. Við skulum sjá til,“ sagði James. Hann viðurkenndi það þó að Trump væri sinn forseti. „Hann er núna forseti okkar allra,“ sagði James.

Frá heimsókn Cleveland Cavaliers í Hvíta húsið.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×