Hiti fór yfir 20 stig á Dalatanga á Austurlandi í kvöld. Hitinn fór upp undir 20 gráðurnar klukkan átta í kvöld en núna um ellefu leytið sýndi sjálfvirkur mælir á Dalatanga 20,1 gráðu. Á Eskifirði fór hiti mest í 18,6 gráður og 17,6 gráður við Bjarnarey.
Það hefur því verið sumarhiti á svæðinu en veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands lýsti þessari „hitabylgju“ sem týpískum hnúkaþey, það er að segja hlýr og þurr vindur sem blæs yfir svæðið af fjöllum að því er fram kemur á Vísindavef Háskóla Íslands. Hefur suðvestan átt verið ríkjandi á svæðinu í kvöld en það mun kólna fljótt aftur nótt og frystir annað kvöld.
Á morgun má búast við vestan átt, 18 – 25 metrum á sekúndu og él norðaustan til undir morgun. Annars norðvestan 5 – 15 metrar á sekúndur en dregur úr vindi og léttir til þegar líður á morgundaginn, en áfram hvasst út við austur ströndina. Frystir víðast var seinni partinn á morgun.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Hægir vindar, víða bjartviðri og frost 1 til 6 stig, en gengur í suðaustan 8-13 m/s með slyddu eða rigningu S- og V-lands um kvöldið og hlýnar þar.
Á sunnudag:
Suðlæg átt, 10-15 m/s og rigning með köflum, en hægara og þurrviðri N- og A-lands. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast nyrst, en kólnar um kvöldið.
Á mánudag:
Sunnan- og suðvestan 8-13 m/s og él, en bjartviðri á N- og A-landi. Kólnandi veður.
Á þriðjudag:
Vestlæg eða breytileg átt og stöku él, en gengur í norðaustanátt með éljagangi NV-til um kvöldið. Svalt í veðri.
Á miðvikudag:
Breytilegar átti og él víða um land, en vaxandi norðanátt seinni partinn. Kólnandi veður.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðanátt með éljum fyrir norðan, en bjartviðri syðra og harðnandi frost.
