Og er þar vísast að tala um Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamann hjá Reykjavík Media – en viðtal við Jóhannes reyndist mikill örlagavaldur í lífi Sigmundar og ekki víst að hann kunni honum miklar þakkir.
Sigmundur Davíð var kjörinn maður ársins á útvarpsstöðinni Útvarp Saga í dag. Hann mætti af því tilefni í viðtal til Péturs Gunnlaugssonar. Sigmundur Davíð var afar þakklátur hlustendum Útvarps Sögu og útvarpsstöðinni sem slíkri. Sagði Sigmundur Davíð meðal annars að það væri gleðiefni að til væri fjölmiðill sem þyrði að láta ýmsar skoðanir heyrast og héldi fram staðreyndum sem annars staðar væru látnar liggja á milli hluta. Einhverra hluta vegna.
Um að gera að taka þátt í kosningunum
Ekki var betur á Sigmundi Davíð að skilja en svo að hann hvetti hlustendur Útvarps Sögu til að láta til sín taka í kosningunum um mann ársins á Rás 2. Sagði eitthvað á þá leið að um að gera væri að taka þátt í þeim kosningum líka.
Samkvæmt heimildum Vísis er orðið á göngum Ríkisútvarpsins það að atkvæði honum til handa streymi inn í áður óþekktu magni; stuðningsmenn Sigmundar Davíðs virðast duglegir við að styðja sinn mann í þessu sem öðru.
Eins og fram hefur komið hefur Sigmundur Davíð ítrekað sakað RUV um að leggja sig í einelti og víst er að margir bíða þess spenntir að heyra viðtal við Sigmund Davíð á Rás 2 þegar rætt verður við hann sem mann ársins – ef fer sem horfir.
Þá er Sigmundur Davíð einnig einn af þeim tíu sem hægt er að kjósa um sem maður ársins í kjöri Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni og Vísis.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtalið af vef Útvarps Sögu.