Körfubolti

George Karl hraunar yfir Carmelo Anthony í nýrri bók

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
George Karl, fyrrum þjálfari í NBA-deildinni, er ekki mikill aðdáandi NBA-stjörnurnar Carmelo Anthony og Karl gagnrýnir fyrrum leikmann sinn harðlega í nýrri bók sinni.

George Karl kallar Carmelo Anthony sjálfselskan og háðan sviðsljósinu. Karl hefur oftast talað vel um Carmelo Anthony en nú er heldur betur komið annað hljóð í skrokkinn.

Carmelo Anthony spilaði í sex ár fyrir George Karl hjá Denver Nuggets en Anthony var alls í átta ár hjá Denver áður en honum var skipt til New York Knicks  á 2010-11 tímabilinu.

„Carmelo var algjör ráðgáta þessi sex ár sem ég hafði hann í mínu liði,“ skrifaði George Karl í bók sinni „Furious George" en blaðamaður New York Post komst yfir eintak af bókinni.

„Hann var besti sóknarmaður sem ég hef þjálfað en um leið notaði hann fólk, var háður sviðsljósinu og mjög ósáttur þegar hann þurfti að deila sviðsljósinu með einhverjum,“ skrifaði Karl í bókina.

Karl hefur einnig þjálfað Sacramento Kings, Cleveland Cavaliers, Golden State Warriors, Seattle Supersonics og Milwaukee Bucks á sínum ferli og hefur því mikla reynslu af stórstjörnum deildarinnar.

„Hann gerði mig heldur betur reiðan þegar hann lagði sig ekki fram í varnarleiknum. Best fyrir þjálfarann er þegar besti leikmaðurinn er einnig leiðtogi liðsins. Carmelo lagði sig aðeins fram á öðrum enda vallarins og með því varð það ljós að hann gat aldrei verið leiðtogi Nuggets-liðsins þótt að hann vildi það sjálfur,“ sagði Karl.

„Að þjálfa Carmelo Anthony þýddi að ég þurfti að vinna í því að finna leiðir í kringum lélegan varnarleik hans og reyna um leið að bæta upp fyrir lélegt hugarfar hans,“ skrifaði Karl.  

Carmelo Anthony vildi lítið segja um þessi ummæli þegar þau voru borin undir hann. Hann sló reyndar aðeins á létta strengi og sagðist ekki ætla að tjá sig fyrr en hann gæfi út sína bók. Nafnið á þeirri bók? „Stay Melo“ svaraði Carmelo Anthony í léttum tón.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×