Þrjár fjölskyldur, sem allar eru sagðar tengjast árásarmanninum, eru meðal hinna handteknu. Flestir hinna handteknu eru frá Túrkistan, Dagestan og Kirgistan, en árásarmaðurinn sjálfur er sagður vera frá Kirgistan.

Hann var enn ófundinn í gær, en honum tókst að komast burt frá skemmtistaðnum í Istanbúl á nýársnótt eftir að hafa myrt þar 39 manns og sært um sjötíu.
Í nóvember síðastliðnum var hann staddur í bænum Konja ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum. Hann hafði leigt sér hús þar.
Eiginkona hans sagðist í viðtali við tyrkneska dagblaðið Hurriyet ekkert hafa vitað af því að maður sinn hafi hrifist af boðskap Íslamska ríkisins, hvað þá að hann hafi framið þetta voðaverk. „Ég frétti af árásinni í sjónvarpi,“ sagði hún.
Tyrkneskir fjölmiðlar segja hann heita Lakhe Mashrapov og hafa barist með vígasveitum Íslamska ríkisins í Sýrlandi, meðal annars í götubardögum. Hann sé því vel þjálfaður í vopnaburði.
Stjórnvöld hafa birt myndband sem hann tók af sjálfum sér þar sem hann gekk um á Taksimtorgi í Istanbúl innan um almenning. Ekki er ljóst hvort þetta myndband var tekið upp áður en hann hélt inn á skemmtistaðinn Reina til að drepa fólk eða eftir að hann var búinn að því.
Íslamska ríkið, eða Daish, lýsti yfir ábyrgð á hryðjuverkinu strax á mánudaginn, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem þessi samtök segja hreint út að maður á þeirra vegum hafi framið árás af þessu tagi.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.