Körfubolti

Maðurinn með "ís í æðunum“ | Sjáið hann græða ellefu milljónir með einu skoti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það getur gefið vel að hitta úr skoti frá miðju. Þessi mynd tengist þó fréttinni ekki.
Það getur gefið vel að hitta úr skoti frá miðju. Þessi mynd tengist þó fréttinni ekki. Vísir/Getty
Hann talaði sjálfur um að hann væri með „ís í æðunum“ og það er vel hægt að færa rök fyrir því eftir að hann smellti niður skoti frá miðju eins og ekkert væri sjálfsagðra.

Jerald Acoba fór skælbrosandi og talsvert ríkari heim af NBA-leik Los Angeles Lakers og Memphis Grizzlies í nótt.

Jerald Acoba er þrítugur og hann stóðst pressuna þegar hann mætti milli þriðja og fjórða leikhluta og hitti úr skoti frá miðju fyrir framan nítján þúsund áhorfendur í Staples Center.

Verðlaunin voru 95 þúsund dollarar eða rétt tæpar ellefu milljónir íslenskra króna.

Eftir að Jerald Acoba hitti úr skotinu benti hann á handlegginn sinn og öskraði að hann væri með „ís í æðunum“ en ein stærsta stjarna Lakers-liðsins, D'Angelo Russell, fagnar á svipaðan hátt þegar hann setur niður þristana sína.

Acoba er annar áhorfandinn sem nær að setja niður skot frá miðju en sá fyrri fékk þó „bara“ 35 þúsund dollara þegar hann setti niður skot frá miðju í nóvember. Ástæðan er að upphæðin hækkar þegar einhverjum tekst ekki að hitta frá miðju.

Acoba græddi því vel á því að svo margir voru búnir að klikka í röð en um leið var pressan meira á honum að missa ekki af öllum milljónum. Það er hægt að sjá milljónaskotið hans hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×