Skoðun

Engin lækning hefur fundist

Haukur Örn Birgisson skrifar

Þegar nýr kylfingur byrjar í golfi er oft talað um að viðkomandi hafi smitast af golfbakteríunni. Ég leyfi mér að fullyrða að íslenska þjóðin er golfsjúk um þessar mundir en sjúkdómseinkennin eru hins vegar afar jákvæð: Holl hreyfing og góð útivera með vott af frábærum félagsskap vina og fjölskyldu.

Árið sem nú er nýliðið var líklegast það besta í íslenskri golfsögu. Íslenskum kylfingum fjölgaði áfram og hafa nú aldrei verið fleiri, íslenskir afrekskylfingar hafa aldrei verið betri og tveir þeirra náðu þeim frábæra árangri að komast inn á sterkustu atvinnumótaraðir heims – þá evrópsku og bandarísku. Stúlkurnar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir eru komnar í fremstu röð og munu verða öðrum ungum kylfingum, drengjum og stúlkum, hvatning til frekari framfara. Betri auglýsingu getur íslenskt golf ekki fengið.

Á Íslandi eru flestir kylfingar heims og þeim býðst að leika á flestum golfvöllum heims – miðað við höfðatölu. Í ákveðnum ljóðrænum skilningi má segja að Íslendingar séu stærsta golfþjóð í heimi. Í þessu felast einstök tækifæri og framtíðin er björt í íslensku golfi. Ekki verður látið staðar numið og þetta ár verður vonandi enn betra. Bakterían heldur áfram að dreifa sér og fleiri smitast á hverju ári. Sem betur fer er engin lækning sjáanleg.

Á þessu ári fagnar Golfsamband Íslands 75 ára afmæli sínu og er sambandið því elsta sérsamband innan íþróttahreyfingarinnar. Í sögulegu samhengi er sambandið þó bara á fermingaraldri, enda golfíþróttin mörg hundruð ára gömul. Í tilefni afmælisins langar mig til að bjóða þér í golf. Með því að leggja leið þína í vor á næsta golfvöll muntu uppgötva aðdráttarafl íþróttarinnar og það öfluga félagsstarf sem fyrir hendi er innan hreyfingarinnar. Ég lofa því að móttökurnar verða hlýjar og þú munt sjá hversu auðvelt er að kynnast íþróttinni og smitast í leiðinni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×