Franska stórblaðið Le Parisien segist ekki ætla að birta niðurstöður skoðanakannanna fram að frönsku forsetakosningunum sem fram fara í vor.
„Við ætlum að nálgast þessar kosningar á annan hátt,“ sagði Stephane Albouy, aðalritstjóri Le Parisien og Aujourd’hui en France í viðtali á útvarpsviðtali á France Inter. Frá þessu segir í frétt Digtal Journal.
Albouy segir ákvörðunina ekki ætlaða sem árás á skoðanakönnunarfyrirtæki, heldur vilji blöðin einungis fara aðra leið í aðdraganda kosninga að þessu sinni. Fyrirtækin hafa mikið verið gagnrýnd síðustu misserin fyrir að hafa ekki spáð fyrir um niðurstöður bandarísku forsetakosninganna og Brexit-atkvæðagreiðslunnar svo dæmi sé tekið. „Þið munið ekki sjá neinar skoðanakannanir á næstu mánuðum,“ segir Albouy.
Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fara fram þann 23. apríl. Nái enginn frambjóðandi hreinum meirihluta verður kosið milli tveggja efstu þann 7. maí.
Franskt stórblað hættir að birta skoðanakannanir
Atli Ísleifsson skrifar
