Fyrsti fundur í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokksin og Viðreisnar hófst í fundarherbergi forsætisnefndar á Alþingi klukkan 15:30. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, leiðir viðræðurnar en hann hefur til þess umboð frá forseta Íslands.
Fundinn sitja auk Bjarna þeir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar. Auk þeirra eru Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, og Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar á fundinum.
Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að samkomulag hefði náðst á milli flokkanna um stóru málin sem steyttu á skeri í síðustu viðræðum flokkanna. Aðeins á eftir að setjast niður og skrifa stjórnarsáttmála sem ætti ekki að taka meira en tvær vikur að sögn Benedikts.
