Ísland getur endað í þriðja sæti B-riðils HM 2017 í handbolta. Til þess að það gerist þurfa strákarnir okkar að vinna Makedóníu í úrslitaleik um þriðja sætið annað kvöld.
Þetta varð ljóst í kvöld þegar Spánn gerði okkar mönnum greiða með því að vinna Makedóníu, 29-25, í fjórðu umferð riðlakeppninnar. Sigur Spánverja var torsóttur en staðan var jöfn í hálfleik, 14-14.
Makedónar voru enn þá inn í leiknum þegar tíu mínútur voru eftir en þá voru Spánverjar aðeins með eins marks forskot, 23-22. Spænska liðið var sterkara á endasprettinum og vann á endanum nokkuð öruggan sigur, 29-25.
Hornamaðurinn Valero Rivera fór á kostum í kvöld og skoraði ellefu mörk úr fjórtán skotum en hann var lang markahæstur í liði Spánar. Eins og alltaf var Kiril Lazarov markahæstur Makedóníumanna en hann skoraði sex mörk úr tíu skotum.
Með sigrinum komst Spánn aftur í efsta sæti B-riðils með átta stig eða fullt hús. Það er búið að vinna alla fjóra leiki sína og þarf aðeins jafntefli gegn Slóveníu í lokaumferðinni á morgun til að tryggja sér sigur í riðlinum.
Makedónía er í þriðja sæti með fjögur stig, einu stigi meira en Ísland. Strákarnir okkar mæta Makedóníumönnum á morgun klukkan 17.45 í úrslitaleik um þriðja sætið þar sem Makedóníu nægir jafntefli. Sigur tryggir Íslandi þriðja sætið og leik á móti Noregi í 16 liða úrslitum.
Ísland kemur til leiks á morgun eftir eins dags hvíld en Makedónía eyddi miklum kröftum í þennan erfiða leik gegn Spáni í kvöld.
Örlög strákanna okkar í þeirra höndum eftir sigur Spánverja
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið


„Skil ekki af hverju við erum alltaf að koma fólki á óvart“
Íslenski boltinn

„Í dag unnum við þetta eins og fjölskylda“
Íslenski boltinn


„Ertu galinn? Þetta var frábær fótboltaleikur“
Íslenski boltinn

Reka 200 manns eftir tapið fyrir Tottenham
Enski boltinn

„Við þurfum hjálp frá Guði“
Handbolti


