Erlent

Tífalt fleiri fá peninga til að snúa aftur heim

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Tífalt fleiri hælisleitendur í Svíþjóð fengu greitt til að snúa aftur til heimalands síns í fyrra en árið á undan. Þeir sem draga sjálfir hælisumsókn sína til baka, eða hefur verið synjað um hæli, eiga rétt á fjárstuðningi til að snúa aftur heim.

Árin 2013 og 2015 fengu 215 greiðslu hvort ár. Í fyrra var fjöldinn 2.521. Flestir voru frá Írak og Afganistan.

Peningarnir eru greiddir þegar viðkomandi er kominn til heimalands síns. Fullorðnir fá 30 þúsund sænskar krónur eða um 380 þúsund íslenskar krónur. Greiðsla vegna barns er helmingi lægri eða um 190 þúsund íslenskar krónur. Hámarksgreiðsla til fjölskyldu er 75 þúsund sænskar krónur eða um 950 þúsund íslenskar krónur.

Hælisleitendur eru sagðir vilja snúa heim þar sem þeim þyki afgreiðslutími umsókna of langur eða að lífið í Svíþjóð sé öðruvísi en þeir áttu von á. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×