Skoðun

Aldraðir þurfi ekki að kvíða morgundeginum!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Á þeim undanförnum 10 árum, sem ég hef unnið að málefnum eldri borgara, hef ég kynnst kjörum mikils fjölda aldraðra. Þeir hafa greint mér frá kjörum sínum og hvernig þeim hafi gengið að láta enda ná saman af þeim litla lífeyri, sem ríkið hefur skammtað þeim. Þetta hafa í flestum tilvikum verið eldri borgarar, sem einungis hafa haft lífeyri frá almannatryggingum en engan lífeyrissjóð eða aðrar tekjur. Í nokkrum tilvikum hefur einnig verið um að ræða aldraða, sem haft hafa lítinn lífeyrissjóð, 50-100 þúsund kr. á mánuði. Það athyglisverða er, að kjör þeirra, sem haft hafa lítinn lífeyrissjóð, hafa verið sáralítið betri en þeirra, sem einungis hafa haft lífeyri frá Tryggingastofnun. Það hefur verið svo vegna skerðingar tryggingalífeyris. Tryggingastofnun hefur hrifsað svo mikið af tryggingalífeyri þeirra, sem haft hafa þennan lífeyri úr lífeyrissjóði, að lítið hefur verið eftir.

„Strípaður lífeyrir“ dugar ekki fyrir öllum útgjöldum

Viðræður mínar við eldri borgara hafa leitt í ljós, að þeir sem átt hafa húsnæði, skuldlítið, hafa komist miklu betur af en hinir, sem hafa þurft að leigja eða borga mikið af húsnæði sínu. Því miður er það svo, að þeir eldri borgarar, sem eru á „strípuðum lífeyri“ eiga yfirleitt ekki húsnæði. Þessi hópur eldri borgara og raunar einnig öryrkja á mjög erfitt fjárhagslega. Lífeyrir almannatrygginga dugar yfirleitt ekki fyrir öllum útgjöldum þeirra og einhver nauðsynleg útgjöld verða ávallt útundan. Verst er þó, þegar lífeyririnn er búinn fyrir lok mánaðar og ekkert er til fyrir mat síðustu daga mánaðar. Þau eru ófá símtölin, sem starfsmenn Félags eldri borgara hafa fengið frá eldri borgurum, sem hafa verið í vandræðum síðustu daga mánaðarins. Ef ekkert er til fyrir mat, verður að leita til ættingja eða hjálparstofnana.

Alþingi gerði ekkert fyrir aldraða fyrir jól!

Er ekki kominn tími til að breyta þessu og ákvarða lífeyri aldraðra og öryrkja það háan, að hann dugi fyrir sómasamlegri framfærslu; aldraðir þurfi ekki alltaf að kvíða morgundeginum. Ég vísaði til nýs Alþingis fyrir jólaleyfi, að þingið mundi hækka lífeyri myndarlega; annað hvort leysa mál aldraðra og öryrkja til frambúðar eða samþykkja að veita þeim góða hækkun fyrir jólin. Alþingi gerði hvorugt. Alþingismenn hældu hins vegar hver öðrum fyrir að hafa náð samkomulagi um fjárlagafrumvarpið. Hvaða gagn er í því, ef stórum vandamálum er skotið á frest? Það er lítið gagn í því.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×