Lokað er um Siglufjarðarveg vegna snjóflóða. Snjóflóð féllu á veginn í nótt en beðið er með mokstur þar til birtir og hægt verður að meta frekari hættu nánar.
Talsvert hefur snjóað til fjalla á norðan- og austanverðu landinu en töluverð hætta er talin á snjóflóðum á utanverðum Tröllaskaga þar sem búast má við frekari snjósöfnun til fjalla. Töluverð hætta er jafnframt á snjóflóðum á Austfjörðum.
Varað hefur verið við stórhríð á norðaustanverðu landinu fram yfir hádegi, frá Tröllaskaga og niður á Austurfirði. Vegagerðin gerir ráð fyrir sviptivindum frá Suðursveit og með ströndinni austur á Firði, en hviður verða staðbundnar allt að 35 til 40 metrar á sekúndu.
Færð og aðstæður
Samkvæmt nýjustu fréttum frá Vegagerðinni er þungfært víða á Norðausturlandi. Ófært er á Víkurskarði og þungfært og stórhríð er á Tjörnesi. Þæfingur og stórhríð á Hólaheiði, ófært og stórhríð á Hófaskarði og Hálsum. Flughálka og stórhríð er í Þistilfirði. Ófært er á Brekknaheiði, Sandvíkurheiði og Vopnafjarðarheiði.
Þá er ófært á Oddsskarði en þæfingur á Fjarðarheiði en annars er hálka, snjóþekja og víða mikill skafrenningur á Austurlandi.
Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka, þungfært er á Þröskuldum og þæfingur í Ísafjarðardjúpi. Hálka eða hálkublettir er með suðausturströndinni og óveður er í Hamarsfirði og við Hvalnes.
Hálkublettir eru á Sandskeiði en hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Suðurlandi.

