Vígamenn Íslamska ríkisins hafa eyðilagt hluta rómverska leikhússins í borginni Palmyra í Sýrlandi. Gervihnattarmyndir sýna að fornar súlur við inngang leikhússins hafa verið sprengdar í loft upp og miklar skemmdir hafa verið unnar á sviði leikhússins. Fornminjaráðuneyti ríkisstjórnar Basharal-Assad óskar eftir hjálp alþjóðasamfélagsins til að koma rústunum til bjargar.
Samkvæmt CNN liggur ekki fyrir hvenær skemmdirnar voru unnar en umræddar gervihnattarmyndir voru teknar þann 10. janúar.
Hér má sjá hvar skemmdirnar voru unnar.Vísir/AFPPalmyra var mikilvæg borg á „silkiveginum“ svokallaða á tímum Rómarveldisins. Stór vin var í Palmyra og var hún vinsæll áningarstaður verslunarmanna og annarra.
ISIS-liðar skemmdu tölvuert af fornminjum við borgina þegar þeir hertóku hana í maí 2015. Stjórnarher Sýrlands frelsaði svo borgina í mars í fyrra með aðstoð Rússa. Þeir misstu hana hins vegar aftur í desember þegar stjórnarherinn var að einbeita sér að Aleppo í norðurhluta landsins.