Körfubolti

Hefur fengið yfir hundrað tæknivillur á sjö tímabilum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeMarcus Cousins.
DeMarcus Cousins. Vísir/Getty
DeMarcus Cousins, leikmaður Sacramento Kings í NBA-deildinni í körfubolta, er á leiðinni í leikbann eftir að hafa fengið sína sextándu tæknivillu á tímabilinu.

Cousins fékk tvær tæknivillur í tapi á móti Chicago Bulls í nótt en aðra þeirra fékk hann fyrir ýta aðstoðarþjálfara Bulls-liðsins.

Leikmenn í NBA fá umsvifalaust einn leik í bann þegar þeir fá sína sextándu tæknivillu. Auk þess fá leikmenn væna sekt fyrir hverja tæknivillu.

DeMarcus Cousins er frábær leikmaður með 27,9 stig, 10,7 fráköst og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessu tímabili en hann hefur litla sem enga stjórn á skapi sínu og er auk þess með slæmt orð á sér.

Cousins er að hækka stigaskor sitt á fjórða tímabilinu í röð en því miður hefur honum ekki tekist að hafa hemil á vandræðagemlingnum og þefar því upp öll möguleg vandræði í leikjum Sacramento Kings.

Það eru mörg lið í miklum vandræðum með að stoppa DeMarcus Cousins inn á vellinum en þeim gengur oft mun betur með að æsa hann upp. Vandræðin og vesenið á honum kalla því á meira áreiti og um leið meiri pirring og leiðindi.  

Cousins hefur safnað tæknivillunum á sjö tímabilum sínum í NBA-deildinni og nú er svo komið að hann er með miklu fleiri tæknivillur en næsti maður.

Cousins hefur nú fengið 104 tæknivillur á ferlinum eða 28 fleiri en Russell Westbrook sem kemur honum næstur. Það má sjá topplistann hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×