Fótbolti

Messi og Suárez skoruðu báðir og Barcelona heim með sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Luis Suárez fagna í kvöld.
Lionel Messi og Luis Suárez fagna í kvöld. Vísir/Getty
Barcelona er með eins marks forskot eftir fyrri undanúrslitaleik sinn á móti Atlético Madrid í spænska Konungsbikarnum.

Barcelona vann 2-1 í kvöld en leikurinn fór fram á heimavelli Atlético Madrid.

Luis Suárez kom Barcelona í 1-0 á 7. mínútu eftir sendingu frá Javier Mascherano og Lionel Messi skoraði annað markið á 33. mínútu eftir stoðsendingu frá Króatanum Ivan Rakitic.

Frakkinn Antoine Griezmann náði að minnka munninn á 59. mínútu eftir sendingu frá Diego Godín.

Það var mikill hiti í mönnum á síðasta hálftímanum en þá fengu alls sex leikmenn liðanna gul spjöld og þar á meðal voru Lionel Messi og Neymnar.

Seinni leikurinn fer síðan fram á Nývangi eftir sex daga.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Celta Vigo og Alavés en fyrri leikur þeirra fer fram á morgun. Það var einmitt Celta Vigo liðið sem sló út Real Madrid í átta liða úrslitunum.

Barcelona hefur unnið spænska bikarinn undanfarin tvö tímabil og komist í úrslitaleikinn þrjú ár í röð. Atlético Madrid er að reyna að komast þangað i fyrsta sinn í fjögur ár eða síðan liðið vann Real Madrid í úrslitaleiknum 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×