Erlent

Trump mun ekki mæta á kvöldverð með blaðamönnum: Í fyrsta sinn í 36 ár sem forseti mætir ekki

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt á Twitter síðu sinni, að hann muni ekki mæta á árlegan kvöldverð blaðamanna innan Hvíta hússins.

Um er að ræða gamalgróna hefð þar sem samtök blaðamanna innan Hvíta hússins bjóða forsetanum til kvöldverðar og hefur jafnframt myndast hefð fyrir því að gert sé góðlátlegt grín að forsetanum á kvöldverðinum. Þá hefur fjöldi þekktra einstaklinga einnig látið sjá sig á þessum viðburði.

„Ég mun ekki mæta á kvöldverð með Samtökum blaðamanna Hvíta hússins á þessu ári. Óska öllum alls hins besta og eigið frábært kvöld!“

Tilkynningin frá forsetanum kemur á tímum þar sem samskipti forsetans við fjölmiðla hafa náð nýjum lægðum en hann hefur sagt að fjölmiðlar séu óvinir bandarísku alþýðunnar. Þá var völdum fjölmiðlum, líkt og New York Times, CNN og Guardian ekki boðið á blaðamannafund Hvíta hússins á föstudaginn var.

Er þetta í fyrsta sinn í 36 ár sem að forseti lætur ekki sjá sig á þessum viðburði en seinast gerðist það árið 1981, þegar þáverandi forseti, Ronald Reagan, mætti ekki, en þá hafði hann nýlega lent í skotárás og var enn að jafna sig.

Í tilkynningu frá Samtökum blaðamanna Hvíta hússins kemur fram að eftir því sé tekið að forsetinn muni ekki mæta. Þó verði viðburðurinn haldinn með sama hætti og síðustu ár og þætti fjölmiðla í heilbrigðu lýðræðisríki fagnað.

Barack Obama, fyrrverandi forseti, mætti á hvern einasta kvöldverð þegar hann var í embætti. Sló hann jafnan á létta strengi og hér að neðan má sjá ræðu hans frá kvöldverðinum árið 2011, þar sem hann gerði stólpagrín að núverandi forseta. Þá má einnig sjá ræðu grínistans Stephen Colbert frá árinu 2006, þar sem hann grillaði George Bush, þáverandi forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×