Skoðun

Tökum upplýsta ákvörðun

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Frummælendur áfengisfrumvarpsins segja gjarnan að árangursríkasta leiðin til að sporna gegn óhóflegri neyslu áfengis sé fræðsla og forvarnir og að það sé deilt um það hvort sala áfengis í verslunum leiði til aukinnar og jafnvel óhóflegrar neyslu áfengis.

Að gefnu tilefni er ástæða til að ítreka að í skýrslum og fræðigreinum um lýðheilsuaðgerðir kemur mjög skýrt fram að áfengisneysla eykst með auknu aðgengi í matvörubúðum, sérstaklega hjá ungmennum og þeim sem kunna verst með áfengi að fara. Fræðsla er mikilvæg en dugar ekki ein og sér.

Árangursríkustu forvarnirnar eru: 1) Takmörkun á aðgengi; 2) Neyslustýringarskattur, og; 3) Bann við auglýsingum. Sumir þingmenn – vonandi í minnihluta – vilja nú virða að vettugi tvær mikilvægustu forvarnirnar af þremur.

Lög eru venjulega sett til að þjóna hagsmunum þjóðfélagsins. Hvaða hagsmunum þjónar frumvarpið um breytingar á áfengissölulögunum þegar lítill minnihluti samfélagsins vill áfengi í búðir? Það er algjörlega óásættanlegt ef þingmenn setja eigin hagsmuni og hagsmuni matvöruverslanaeigenda fram yfir hagsmuni samfélagsins og hagsmuni æskunnar. Fyrirkomulagið í dag hefur reynst okkur vel og samkvæmt samanburðartölum OECD er neysla áfengis með því lægsta hér á landi. Afneitum ekki staðreyndum. Við getum gert svo miklu betur.





Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×