Boston Celtics bar sigurorð af Los Angeles Lakers, 95-115, þegar gömlu stórveldin mættust í Staples Center.
Sex leikmenn Boston skoruðu 13 stig eða meira í leiknum í nótt. Isiah Thomas var þeirra stigahæstur með 18 stig en hann gaf einnig átta stoðsendingar.
Jordan Clarkson skoraði 20 stig fyrir Lakers sem hefur tapað sex leikjum í röð og vermir botnsætið í Vesturdeildinni.
Það var mikið skorað þegar Cleveland Cavaliers sótti Atlanta Hawks heim. Lokatölur 130-135, Cleveland í vil.
Kyrie Irving skoraði 43 stig og gaf níu stoðsendingar og LeBron James gerði 38 stig, tók 13 fráköst og gaf átta stoðsendingar fyrir Cleveland sem er á toppnum í Austurdeildinni.
Tim Hardaway yngri var stigahæstur í liði Atlanta með 36 stig en hann hitti úr 13 af 20 skotum sínum í leiknum.
Stórleikur Russells Westbrook dugði Oklahoma City Thunder ekki til sigurs gegn Phoenix Suns á útivelli. Lokatölur 118-111, Phoenix í vil.
Westbrook skoraði 48 stig, tók 17 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Þetta var 25. leikurinn í vetur þar sem hann er með a.m.k. 30 stig, 10 fráköst og fimm stoðsendingar.
Úrslitin í nótt:
LA Lakers 95-115 Boston
Atlanta 130-135 Cleveland
Phoenix 118-111 Oklahoma
Philadelphia 105-102 NY Knicks
Washington 106-114 Toronto
Milwaukee 112-101 LA Clippers
New Orleans 98-101 San Antonio