Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sendi Tyrkjum sem búa í Evrópu þau skilaboð í dag að eignast fimm börn en ekki þrjú. Hann sagði þau börn vera „framtíð“ Evrópu. Erdogan á í illvígri deilu við Evrópu eftir að ráðherrum hans var meinað að halda kosningafundi í nokkrum ríkjum.
Ráðherrarnir hafa verið á ferðalagi til að ná til þeirra 2,5 milljóna Tyrkja sem búa í Evrópu og mega taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar í Tyrklandi í næsta mánuði. Samkvæmt AFP geta þó milljónir Evrópubúa rakið rætur sínar til Tyrklands.
Sjá einnig: Erdogan berst við „Nasista“ og hótar þvingunum
Í ræðu sem sýnd var í sjónvarpi í Tyrklandi í dag sagði Erdogan að Tyrkjum hefði verið sýndur mikill dónaskapur í Evrópu. Undanfarna viku hefur hann margsinnis sakað nokkur Evrópuríki um að haga sér eins og Þýskaland á tímum nasismans.
Með þessu er Erdogan sagður vilja ná til kjarna síns í Tyrklandi og þjappa þjóðernissinnum á bak við sig fyrir kosningarnar.

