Lengsta röðin myndaðist við básinn hjá Gunnari og var hann enn í viðtölum þegar allir aðrir voru farnir heim. Hann sinnti viðtölunum eins og fagmaður þó þessi dagur sé ekki í miklu uppáhaldi hjá honum.
Allir bardagakapparnir sem eigast við á laugardaginn mættust í dag fyrir myndatöku og var afskaplega skondið að sjá þá Gunnar og Jouban saman á sviðinu.
Jouban er glæsilegt eintak af manni og sinnir módelstörfum samhliða því að berja á mönnum í UFC. Hann mætti eins og klipptur út úr tískuriti í dag á meðan Gunnar var í gráum joggingbuxum með hárið ógreitt.
Gunnar hafði húmor fyrir muninum á þeim tveim enda var stressið ekki að fara með Gunnar frekar en fyrri daginn.
„Hann er náttúrlega Versace-módel - helvíti huggulegur. Ég veit ekki hvort maður hefur það í sér að vera að slá hann of mikið í andlitið og eyðileggja eitthvað meira fyrir honum en bara UFC-ferilinn. Það er kannski óþarfi,“ sagði Gunnar Nelson skælbrosandi við Vísi í dag.
Ekki missa af neinu tengdu bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban. Vísir er í London og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af Gunnari og bardagakvöldinu í O2-höllinni á laugardaginn. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
