Það verður austlæg átt í dag og næstu daga, úrkomulítið og nokkuð milt veður að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Víða verður þó vægt næturfrost en „daginn heldur áfram að lengja og áhrif sólarinnar aukast að sama skapi og allt verður vorlegra,“ eins og segir í hugleiðingunum.
Veðurhorfur næstu daga er annars þessar:
Austan 8-15 sunnantil, hvassast allra syðst, en annars hægari vindur. Dálitlar skúrir með austur- og suðurströndinni í dag, en stöku él inn til landsins. Annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Úrkomuminna um tíma í nótt, en annars svipað veður. Hiti 1 til 7 stig að deginum, en víða næturfrost.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Austan 8-13 syðst á landinu og smáskúrir, en annars hægari austlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 2 til 7 stig að deginum, en í um og yfir frostmarki norðan- og austanlands.
Á föstudag:
Austan 8-13 m/s við norðuströndina, en annars hægari austlæg átt. Stöku skúrir, en lengst af þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Hæg breytileg átt og víða dálítil úrkoma. Hiti 1 til 6 stig að deginum.
Á sunnudag:
Vaxandi suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri.
Á mánudag:
Útlit fyrir hlýja sunnanátt með rigningu, úrkomumest SA-lands.
