Fótbolti

Marca segir Hazard vera í spænskukennslu og sé með augastað á Madríd

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Spænska blaðið Marca slær því upp í kvöld að forráðamenn Real Madrid hafi rætt við umboðsmenn Eden Hazard og að þeir hafi fengið jákvæð viðbrögð þegar þeir voru spurðir hvort Hazard hefði áhuga á félagsskiptum til Real Madrid í sumar.

Hazard sem hefur sýnt frábæra takta á þessu tímabili hefur verið orðaður við Real Madrid undanfarin ár en hann er á fimmta ári sínum hjá Chelsea þrátt fyrir að vera aðeins 26 árs gamall.

Er talið að áhugi Chelsea á James Rodriguez gæti liðkað til samningaviðræður við Chelsea en sá kólumbíski hefur aldrei náð flugi í herbúðum Real Madrid.

Forseti Real Madrid, Florentino Perez, hefur lofað einni stórstjörnu í sumar en það styttist í næstu forsetakosningar og er sagt að Hazard sé efstur á lista hjá Perez.

Hafði Real Madrid samband við umboðsmenn Hazard síðasta sumar en hann hafði ekki áhuga á skiptum strax, hann vildi taka að minnsta kosti eitt tímabil til viðbótar með Chelsea.

Segja blaðamenn Marca frá því að Hazard sé í spænskukennslu þessa dagana og að hann verði meðal launahæstu leikmanna liðsins ásamt Gareth Bale og Cristiano Ronaldo verði af félagsskiptunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×