Körfubolti

Tvær sem þekkja það betur en aðrar að vinna frumsýningarleik í úrslitakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanney Lind Guðmundsdóttir Thomas er hér númer 22 en Jóhanna Björk Sveinsdóttir er númer 23.
Fanney Lind Guðmundsdóttir Thomas er hér númer 22 en Jóhanna Björk Sveinsdóttir er númer 23. Vísir/Andri Marinó
Skallagrímur sótti sigur í Sláturhúsið í Keflavík í sínum fyrsta leik í sögu félagsins í úrslitakeppni kvenna og tveir leikmenn liðsins voru ekki að taka þátt í svo vel heppnaðri frumsýningu í fyrsta skiptið.

Stjörnukonur höfðu tapað sínum fyrsta leik í Stykkishólmi kvöldið áður en nýliðarnir úr Borgarnesi hafa heldur betur stimplað sig inn í kvennakörfunni í vetur.

Skallagrímur varð í gær fimmtánda félagið sem nær að spila leik í úrslitakeppni kvenna í körfubolta þegar liðið vann dýrmætan sigur á Litlu slátrurunum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna.

Skallagrímur er aðeins þriðja félagið frá 1994 sem nær að vinna sinn fyrsta leik í úrslitakeppni en hin eru lið Breiðabliks frá árinu 1995 og lið Hamars frá árinu 2009.

Keflavík, Grindavík, KR og ÍR tóku þátt í fyrstu úrslitakeppninni árið 1993 en frá og með 1994 hafa síðan ellefu félög bæst í hópinn þar af tvö þeirra, Stjarnan og Skallagrímur, í úrslitakeppninni í ár.

Þegar Skallagrímur vann Keflavík í gær voru liðin átta ár frá því að félag vann sinn fyrsta leik í sögu úrslitakeppni kvenna eða síðan að Hamar vann Val í 1. umferð úrslitakeppninnar 2009.

Svo skemmtilega vill til að tveir leikmenn hjálpuðu bæði Skallagrími og Hamar að vinna þessa leiki.

Fanney Lind Guðmundsdóttir Thomas (15 stig 2009 og 4 stig 2017) og Jóhanna Björk Sveinsdóttir (2 stig 2009 og 4 stig 2017) voru í sigurliði í báðum tilfellunum.  Þær tvær þekkja það  því vel að vinna frumsýningarleikinn í úrslitakeppni.



Fyrsti leikur félaga í úrslitakeppni kvenna 1993-2017

Fyrsta úrslitakeppnin

Keflavík 1993 - Sigur (75-64 á Grindavík)

Grindavík 1993 - Tap (64-75 fyrir Keflavík)

KR 1993 - Sigur(63-29 sigur á ÍR)

ÍR 1993 - Tap (29-62 fyrir KR)

Úrslitakeppnirnar eftir það

Tindastóll 1994 - Tap (82-95 fyrir Keflavík)

Breiðablik 1995 - Sigur(59-48 á KR)

ÍS 1997 - Tap (36-60 fyrir KR)

KFÍ 2001 - Tap (67-79 fyrir Keflavík)

Njarðvík 2003 - Tap (62-87 fyrir Keflavík)

Haukar 2005 - Tap (70-71 fyrir Grindavík)

Hamar 2009 - Sigur (72-63 á Val)

Valur 2009 - Tap (63-72 fyrir Hamar)

Snæfell 2010 - Tap (82-95 fyrir Keflavík)

Stjarnan 2017 - Tap (78-93  fyrir Snæfelli)

Skallagrímur 2017 - Sigur (70-68 á Keflavík)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×