Erlent

Trump taldi að lífið sem forseti yrði auðveldara en „gamla lífið“

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump segist sakna þess að sitja undir stýri.
Donald Trump segist sakna þess að sitja undir stýri. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann sakni þess lífs sem hann lifði áður en hann varð forseti. Þá hafi hann talið að lífið sem forseti yrði auðveldara en þegar stýrði fyrirtækjum sínum.

Þetta kemur fram í viðtali Reuters við Trump þar sem farið er yfir fyrstu hundrað daga hans í embætti. Trump segist þar sakna þess að keyra bíl sjálfur og finnst hann lifa í eins konar verndarhjúp.

„Ég elskaði lífið sem ég lifði áður. Ég var með svo margt í gangi. Þetta er meiri vinna en í mínu gamla lífi. Ég hélt að þetta yrði auðveldara,“ segir Trump.

Í viðtalinu segir að hann hafi vanist því að búa við lítið næði frá almenningi og fjölmiðlum, en að það komi á óvart hve takmarkað einkalíf hans væri nú. Enn sé hann að venjast sólarhringsvakt öryggislögreglunnar.

„Maður er í eigin verndarhjúp, þar sem þú ert með þessa miklu öryggisgæslu að það er í raun ekki hægt að fara neitt.“

Forsetanum er jafnan ekið út um allt, ýmist í eðalvagni eða jeppum, og segist hann sakna þess að fá ekki að sitja sjálfur fyrir aftan stýrið. „Mér finnst gaman að keyra. Ég get ekki keyrt lengur,“ segir Trump.

Trump tók við forsetaembættinu í Bandaríkjunum þann 20. janúar síðastliðinn eftir að hafa haft betur gegn Hillary Clinton í forsetakosningunum í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×