Erlent

Norður-Kórea hótar Ástralíu vegna ummæla utanríkisráðherrans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástrala, ásamt Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.
Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástrala, ásamt Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Norður-Kóreskir ráðamenn vara Ástrali við hugsanlegri kjarnorkuvopnaárás, ef áströlsk stjórnvöld munu halda áfram, því sem Norður-Kóreumenn kalla „blindan stuðning“ þeirra við Bandaríkin. Guardian greinir frá. 

Hörð viðbrögð Norður-Kóreumanna koma í kjölfar ummæla utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop, á fundi hennar með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem nú er staddur í opinberri heimsókn í Ástralíu.

Bishop lét hafa eftir sér að Norður-Kóreumenn yrðu beittir frekari refsiaðgerðum af hálfu Ástrala, haldi þeir áfram eldflaugatilraunum sínum. 

Norður-Kóreskir talsmenn brugðust ókvæða við.

„Ástralski utanríkisráðherrann ætti að hugsa sig tvisvar um og hugleiða afleiðingarnar áður en hún missir stjórn á máli sínu einungis til þess að þóknast bandarískum yfirboðurum sínum.“

Ráðherrann hefur áður tjáð sig um málefni Norður-Kóreu og bent á að eldflaugatilraunir þeirra sé gífurleg ógn við Ástralíu. Hún hefur ítrekað kallað eftir viðbrögðum alþjóðasamfélagsins vegna þeirra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×