Kosningunni mun ljúka klukkan sex í dag og búist er við að úrslit verði ljós skömmu síðar.
Ellefu frambjóðendur eru á kjörseðlinum en fjórir mælast með meira fylgi en aðrir. Þá eru þau Marine Le Pen og Emmanuel Macron talin líklegust til að komast í næstu umferð. Um mjög mikilvægar kosningar er að ræða sem gætu haft mikil áhrif á framtíð Evrópusambandsins, Brexit og svo auðvitað framtíð Frakklands.
Sjá einnig: Útlit fyrir afar spennandi fyrri umferð í Frakklandi
Gífurleg öryggisgæsla er í Frakklandi í dag og eru um 50 þúsund lögregluþjónar og sjö þúsund hermenn á götum landsins, samkvæmt BBC. Ákveðið var að herða öryggisgæsluna eftir að lögregluþjónn var skotinn til bana á fimmtudaginn og aðrir særðir í árás sem Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á.