Bandaríkin munu standa við samkomulag við Ástralíu sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur kallað heimskulegt. Þessu hét Mike Pence, varaforseti, í heimsókn sinni til Ástralíu. Samkomulagið var samþykkt af ríkisstjórn Barack Obama og felur í sér að Bandaríkin taki á móti allt að 1.250 hælisleitendum frá Ástralíu.
Yfirvöld í Ástralíu hafa þvertekið fyrir að veita fólkinu hæli, en að mestu er um að ræða karlmenn frá Íran, Afganistan og Írak, samkvæmt BBC. Hælisleitendunum hefur verið haldið í sérstökum og mjög svo umdeildum búðum í Naúrú og Papúa Nýju-Gíneu.
Í staðinn mun Ástralía taka á móti fólki frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador sem hafa sótt um hæli í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: Trump reiður út í forsætisráðherra Ástralíu
Pence sagði að samningurinn yrði heiðraður en ekki dáður. Þeir hælisleitendur sem um ræðir munu þurfa að ganga í gegnum stíft rannsóknarferli áður en þeim verður hleypt inn í Bandaríkin, samkvæmt Hvíta húsinu.
Ætla að standa við „heimskulegt“ samkomulag
Samúel Karl Ólason skrifar
