Erlent

Hillary segir að tíu síðustu dagar kosningabaráttunnar hafi skipt sköpum

Atli Ísleifsson skrifar
Hillary Clinton ræddi við fréttamann CNN, Christiane Amanpour, á viðburðinum Women for Women sem fram fór í New York í gær.
Hillary Clinton ræddi við fréttamann CNN, Christiane Amanpour, á viðburðinum Women for Women sem fram fór í New York í gær. Vísir/Getty
Hillary Clinton segir að síðustu tíu dagar kosningabaráttunnar í haust hafi skipt sköpum og ráðið því að Donald Trump hafi náð kjöri sem forseti Bandaríkjanna en ekki hún. Hún kennir Bandarísku alríkislögreglunni FBI og rússneskum stjórnvöldum um hvernig fór.

Clinton hefur að mestu haldið sig til hlés eftir kosningarnar í nóvember en ræddi við fréttamann CNN, Christiane Amanpour, á viðburðinum Women for Women sem fram fór í New York í gær.

„Ef forstakosningarnar hefðu verið 27. október hefði ég verið forseti ykkar,“ sagði hin 69 ára Clinton. Þann 28. október birtist bréf frá James Comey, yfirmanni FBI, um tölvupóstamál Clinton, og á sama tíma birti Wikileaks upplýsingar frá rússneskum tölvuþrjótum.

Sagði Clinton að þessir þættir hafi stuðlað að því að þeir kjósendur sem þóttu líklegir til að kjósa hana fældust frá því. „Þeir voru hræddir burt,“ sagði Clinton.

Clinton sagðist þó einnig sjálf bera ábyrgð á ósigrinum og að ótal mistök hafi verið gerð í kosningabaráttunni. Hún skaut þó aðeins á Trump og benti á að hún hafi hlotið fleiri atkvæði en hann. Trump varð þó réttkjörinn forseti vegna kosningakerfisins.

Clinton vinnur nú að gerð bókar um kosningabaráttuna sem verður gefin út í haust.

Sjá má brot úr viðtalinu að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×