Erlent

Trump myndi funda með Kim við réttar kringumstæður

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Kim Jong Un.
Donald Trump og Kim Jong Un. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann myndi funda með Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, við „réttar kringumstæður“. Miklar deilur eru á milli ríkjanna vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugatilrauna Norður-Kóreu. Þetta kom fram í viðtali Bloomberg við forsetann í dag.

Trump tók fram í viðtalinu að flestir stjórnmálamenn myndu aldrei segja þetta.

Sean Spicer, talsmaður Trump, sagði blaðamönnum svo í kvöld að „augljóslega“ væru kringumstæðurnar ekki svo nú að Trump muni funda með Kim. Einræðisríkið þyrfti að láta af ögrandi hátterni sínu fyrst. Sérfræðingur sem Bloomberg ræddi við segir þó að líkurnar á fundi þeirra tveggja séu nánast engar.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýverið að Bandaríkin myndu einungis ræða við Norður-Kóreu, ef þeir láti af vopnatilraunum sínum.

Frá því að Kim tók við völdum árið 2011, eftir að faðir hans Kim Jong Il lést, hefur hann aldrei fundað með öðrum þjóðarhöfðingja. Þar að auki hefur hann ekki farið frá Norður-Kóreu á þeim tíma. Utanríkisráðherrann Madeleine Albright, fundaði þó með Kim Jong Il árið 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×