„Aukna tíðni vopnaðra verkefna fyrstu fjóra mánuði ársins má meðal annars skýra vegna tímabils þar sem sérsveit var vopnuð að staðaldri,“ segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. „Þar fyrir utan má líklega merkja einhverja aukningu,“ segir Jón.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði farið að meðaltali í 4,5 útköll á viku á fyrstu fjórum mánuðum ársins.
Tímabilið sem Jón vísar til nær yfir páskana en rétt fyrir þann tíma var gerð árás í miðborg Stokkhólms þar sem fimm manns létu lífið. Í kjölfarið virkjaði greiningardeild ríkislögreglustjóra verklag vegna hryðjuverkaárása í nágrannalöndum, sem meðal annars fólst í tímabundinni fjölgun sérsveitarmanna á vakt.
