Innlent

Níu ferða­menn á ísnum og heil rúta í við­bót á leiðinni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mynd Tóta frá Kerinu hefur vakið mikla athygli.
Mynd Tóta frá Kerinu hefur vakið mikla athygli. Þórarinn Leifsson

Leiðsögumaður varð vitni að fjölda ferðamanna gera sér ferð út á ísinn í Kerinu á Suðurlandi síðdegis í gær. Eigendur þess segjast taka málinu alvarlega og að brugðist verði við, stranglega bannað sé að fara út á ísinn.

Þórarinn Leifsson leiðsögumaður, rithöfundur og myndlistarmaður með meiru birti mynd af ferðamönnunum á samfélagsmiðlum í gær. Níu ferðamenn á ísnum „og heil rúta í viðbót á leiðinni niður stigann.“ Hann segist hafa gert starfsmanni Kersins viðvart en sá hafi gert lítið í málinu og ekki litið upp úr símanum. Hann hafi bent honum á skilti þar sem standi að bannað sé að fara út á ísinn.

„En er þetta kannski bara taugaveiklun í mér? Hefur ísinn kannski aldrei gefið eftir og fólk horfið ofan í tíu metra djúpt vatnið? Kannski er okkur einfaldlega drullu sama,“ skrifar Þórarinn á Facebook.

„Ég hef ekki hundsvit á ís, það er aðalatriðið, ég var ekki beint að klaga en ég ákvað að birta þetta á Facebook því ég vinn náttúrulega við það að halda túristum á lífi og þetta er bara liður í því,“ segir Þórarinn í samtali við Vísi. Þórarinn hefur gefið út fjölda bóka undanfarin ár, síðast glæpasögu með því viðeigandi nafni Út að drepa túrista árið 2021. „Það er auðvitað vel kaldhæðnislegt að gaurinn sem skrifi þá bók hafi verið korter í að horfa á túrista deyja fyrir framan hann,“ segir Þórarinn hlæjandi og tekur fram að um grín sé að ræða.

Þórarinn tekur fram að hann hafi ekki hundsvit á ís en hafi velt fyrir sér spurningum um öryggi ferðamanna. Ásgeir Baldurs segir málið tekið alvarlega.

Taka málinu mjög alvarlega

„Við fréttum af þessu máli í dag og okkur þykir viðbrögð þessa starfsmann mjög miður og ekki eins og við hefðum viljað hafa þau,“ segir Ásgeir Baldurs framkvæmdastjóri Arctic Adventures. Fyrirtækið keypti Kerið fyrir þremur árum síðan, í október 2023. Ári síðar keypti fyrirtækið annan vinsælan ferðamannastað á Suðurlandi, Fjaðrárgljúfur.

„Við tökum þetta mjög alvarlega. Við ætlum að grípa til aðgerða til að auka merkingar þarna á staðnum og fjölga böndum þarna sem við nýtum til að takmarka aðgang að vatninu,“ segir Ásgeir. Hann segir jafnframt að farið verði yfir málin með starfsfólki.

„Því miður er ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir að fólk fari eftir leiðbeiningar, en það á að vera alveg skýrt að þetta er bannað og við höfum líka beðið fólk um að henda ekki grjóti út á ísinn og alls ekki fara út á hann. Við erum sömuleiðis að íhuga að auka myndavélagæslu þarna svo að við getum séð það strax ef eitthvað svona gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×