Erlent

Norður-Kóreumenn segjast reiðubúnir til viðræðna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kim Jong un, einræðisherra í Norður-Kóreu.
Kim Jong un, einræðisherra í Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Norður-kóresk yfirvöld segja að þau séu tilbúin til að ganga að samningaborðinu með Bandaríkjamönnum en einungis „undir réttum kringumstæðum.“ BBC greinir frá. 

Samkvæmt upplýsingum frá Choe Son-hui, erindreka Norður-Kóreu, eru yfirvöld í Pyongyang tilbúin til þess að opna á viðræður við Bandaríkjamenn en þá yrðu Bandaríkjamenn að koma til móts við kröfur Norður-Kóreumanna.

Ekki var tekið fram hvaða kröfur það voru en talið er víst að Bandaríkjamenn muni ekki ganga að samningaborðinu með Norður-Kóreumönnum nema þeir fallist á að hætta þróun eldflaugavopna.

Fyrr í þessum mánuði sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að það yrði heiður að fá að hitta Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Hann hefur áður sagt að hann vilji leysa deiluna með friðsamlegum hætti en að hættan á „miklum, miklum átökum“ væri til staðar.

Deilur Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna hafa stigmagnast á undanförnum vikum og hafa Norður-Kóreumenn ítrekað haldið hersýningar til þess að sýna mátt sinn og megin á meðan Bandaríkjamenn hafa sent nokkur af sínum stærstu herskipum að Kóreuskaga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×