Valsmenn gengu í kvöld frá þriggja ára samning við Einar Baldvin Baldvinsson, einn efnilegasta markvörð landsins, sem kemur til Vals frá uppeldisfélagi sínu Víkingi.
Þessi tvítugi markvörður var hluti af U19 ára landsliði Íslands sem vann til bronsverðlauna á HM 2015 og er í U21 árs landsliðinu sem keppir á HM í Alsír í sumar.
Einar Baldvin var varamarkvörður Víkings í Olís-deildinni fyrir tveimur árum en var aðalmarkvörður liðsins í 1. deildinni á síðustu leiktíð þar sem Víkingum mistókst að endurheimta sæti sitt á meðal þeirra bestu.
Hlynur Morthens og Sigurður Ingiberg Ólafsson hafa varið mark Valsliðsins á þessari leiktíð en það er 1-0 yfir í lokaúrslitunum á móti FH.