Skoðun

Ríkið tók alla „kjarabótina“ til baka!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Fyrrverandi ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks gumaði mikið af því, að hún gerði einhver ósköp fyrir aldraða og öryrkja frá áramótum. Lífeyrir þeirra eldri borgara, sem voru í hjónabandi og sambúð hækkaði þá um 12 þúsund krónur á mánuði og um 23 þúsund á mánuði hjá einhleypum öldruðum. Hér er átt við þá, sem hafa eingöngu tekjur frá TR. Ég hef kallað þessar „kjarabætur“ hungurlús.

Töldu hungurlúsina of mikla kjarabót

En stjórnvöld töldu þessa hungurlús of mikla kjarabót. Hún var því tekin strax til baka, m.a. með skerðingu húsaleigubóta. Fyrir áramót var hámark húsaleigubóta 22.000 kr.

Þeir sem voru með tekjur sínar eingöngu eða að stærstum hluta frá TR voru með óskertar húsaleigubætur, þar sem greiðslur skv. lögum um almannatryggingar skertu ekki bæturnar. Því var breytt frá áramótum. Þá var farið að reikna allar greiðslur frá Tryggingastofnun til lífeyrisfólks með tekjum við útreikning húsaleigubóta.

Öll áramótakjarabótin tekin aftur

Í dag er upphæð húsaleigubóta 31.000 kr. fyrir einn í heimili. Tekjuskerðing byrjar við 281.083 kr. á mánuði. Eldri borgari hafði samband við mig og skýrði mér frá stöðunni hjá sér. Hann hækkaði í 230 þúsund á mánuði frá TR um áramót (um 23 þús.). Auk þess hefur hann greiðslu úr lífeyrissjóði sem er talsvert innan við 100 þúsund á mánuði. Maður þessi var með húsaleigubætur en vegna aukinnar skerðingar frá áramótum sætti hann niðurskurði húsaleigubótanna, þannig að ríkisvaldið tók alla „kjarabótina“ af honum. Þannig fór um áramótakjarabótina hans.

Vaxtabætur (og barnabætur) lækkaðar um 57,7 milljarða

Ákvæði um hærri vaxtabætur féllu úr gildi 1. janúar 2014. Alls lækkuðu vaxtabætur (og barnabætur) um 57,7 milljarða 2014. Framangreindar breytingar hafa leitt til þess, að fjölmargir aldraðir og öryrkjar hafa orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu og miklu meiri en nemur þeim litlu kjarabótum sem þeir hafa fengið. Sem dæmi má nefna, að lífeyrisþegi var með tæpar 200 þúsund í vaxtabætur en í dag fær hann engar vaxtabætur. Þær hafa verið þurrkaðar út. Þetta er veruleg kjaraskerðing hjá honum.

Það sem hér hefur verið rakið um aukna skerðingu húsaleigubóta og lækkun vaxtabóta hefur valdið öldruðum verulegri kjaraskerðingu. Auk þess hafa komugjöld í heilbrigðisþjónustu aukist, meira að segja eftir að nýtt greiðsluþak tók gildi. Dæmi um slíka hækkun: Eldri borgari þurfti að greiða 6.600 kr. fyrir viðtal við sérfræðing og blóðrannsókn eftir að nýja kerfið tók gildi. Það var 77% hækkun frá því hann fékk síðast slíka þjónustu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×