Fótbolti

Lahm og Alonso léku kveðjuleikinn í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Philipp Lahm var heiðraður fyrir leikinn á Allianz Arena.
Philipp Lahm var heiðraður fyrir leikinn á Allianz Arena. vísir/getty
Tveir af bestu fótboltamönnum sinnar kynslóðar, Philipp Lahm og Xabi Alonso, léku sinn síðasta leik á ferlinum í dag.

Lahm og Alonso voru báðir í byrjunarliði Bayern München sem vann 4-1 sigur á Freiburg í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Arjen Robben, Arturo Vidal, Franck Ribéry og Joshua Kimmich skoruðu mörk Bayern var þegar búið að tryggja sér þýska meistaratitilinn fimmta árið í röð.

Lahm og Alonso fengu báðir heiðursskiptingu undir lok leiksins og þeim var vel fagnað af áhorfendum á Allianz Arena.

Lahm lék með Bayern allan sinn feril af frá eru talin tvö tímabil þar sem hann var í láni hjá Stuttgart. Eftir leikinn í dag var Lahm tekinn inn í frægðarhöll Bayern.

Lahm varð átta sinnum þýskur meistari með Bayern, sex sinnum bikarmeistari auk þess sem hann vann Meistaradeild Evrópu með liðinu vorið 2013. Þá varð Lahm heimsmeistari með þýska landsliðinu 2014.

Alonso gekk í raðir Bayern frá Real Madrid sumarið 2014. Spánverjinn vann allt sem hægt var að vinna á sínum ferli.

Alonso varð þrisvar sinnum þýskur meistari með Bayern og einu sinni Spánarmeistari með Real Madrid. Hann varð bikarmeistari á Englandi, Spáni og Þýskalandi og vann Meistaradeild Evrópu með Liverpool og Real Madrid. Þá varð Alonso einu sinni heimsmeistari og tvisvar sinnum Evrópumeistari með spænska landsliðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×