Hallur vísar til jafnréttislaga og tekur fram í bréfi sínu að hann muni leita réttar síns ef svo ber undir. Hallur bendir á að á velferðarsviði eru skilgreindir 15 stjórnendur: 14 konur og 1 karlmaður. Í ljósi jafnréttislaga, sem ganga út á að jafna hlutföll milli kynja, blasir við að ef um er að ræða jafnhæfa umsækjendur þá ber að ráða þann þess kyns sem á hallar. Það er ef jafnréttislög ganga út á jafnréttindi?

„Þetta fór í gegnum Hagvang, þau tóku viðtal við mig í gegnum Skype,“ segir Hallur í samtali við Vísi. Samkvæmt þeim var það Regína sviðsstjóri sem tók ákvörðun um hver var valinn.“
Hallur bíður nú eftir rökstuðningi en Regína hefur staðfest móttöku erindis hans.
Bréf Halls
Ég vil byrja á því að óska Velferðarráði og Velferðarsviði til hamingju með nýjan afar hæfan skrifstofustjóra. Dís Sigurgeirsdóttir er afar hæf og með menntun og reynslu sem mun koma að góðum notum á Velferðarsviði. Skil vel af hverju Velferðarráð og Velferðarsvið kaus að velja þennan jafningja minn í starfið.
Ég hef barist fyrir jafnrétti í næstum fjóra áratugi. Fyrir jafnrétti kynjanna og jafnrétti þeirra hópa sem hafa átt undir högg að sækja gagnvart öðrum. Hef sem stjórnandi hjá hinu opinbera lagt jafnréttislög sem grunn að mínu starfi sem stjórnandi í atvinnulífinu lagt til grundvallar þá hugsun sem er grunnur jafnréttislaganna og jafnréttishugsjónarinnar.
Get ekki látið þessa ráðningu afar hæfrar konu ganga í gegn án þess að fá fram sjónarhorn og rök Velferðarráðs og yfirmanns Velferðarsviðs á ráðningunni.
Á Velferðarsviði eru skilgreindir 15 stjórnendur 14 konur og 1 karlmaður. Því er augljóst að við ráðningu skrifstofustjóra á Velferðarsviði er ástæða til þess að hafa til hliðsjónar ákvæði jafnréttislaga. Það var greinilega ekki gert.
Í ljósi þessa þá þarf Velferðarráð og yfirmaður Velferðarsviðs að sýna fram á að sú kona sem ráðin var sé HÆFARI en þeir karlmenn sem sóttu um.
Því óska ég eftir rökstuðningi Velferðarráðs og yfirmanns Velferðarsviðs fyrir því að hin afar hæfa Dís Sigurgeirsdóttir sé HÆFARI en ég til að gegna starfinu með hliðsjón af ákvæðum jafnréttislaga um jafnrétti kynjanna.
Áskil mér rétt til að leita réttar míns þegar svar hefur borist.
Hallur Magnússon