Með sigrinum lyftu Þórsarar sér upp úr ellefta sætinu og í það níunda.
Frammarar eru hins vegar í 3. sæti deildarinnar með 11 stig. Þetta var fyrsta tap liðsins í sumar.
Þór byrjaði leikinn af krafti og komst yfir strax á 6. mínútu þegar Jónas Björgvin Sigurbergsson skoraði laglegt mark með skoti í stöng og inn.
Á 27. mínútu skoraði Jóhann Helgi Hannesson annað mark Þórs og hann var svo aftur á ferðinni eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik og staðan orðin 0-3.
Jóhann Helgi fékk svo tvö góð færi til að ná þrennunni sem ekki nýttust.
Högni Madsen minnkaði muninn níu mínútum fyrir leikslok en nær komust heimamenn ekki. Lokatölur 1-3, Þór í vil.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, tók á leiknum á Laugardalsvelli í kvöld.




