Erlent

Lögmaður Trump segir vitnisburð Comey réttlæta forsetann

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir allt telur Donald Trump að framburður Comey réttlæti sig.
Þrátt fyrir allt telur Donald Trump að framburður Comey réttlæti sig. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, finnst að framburður James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, „réttlæti hann algerlega og fyllilega“, að sögn lögmanns forsetans. Þingmenn repúblikana hafa tekið misjafnlega í uppljóstranir Comey.

Skrifleg útgáfa af opnunarávarpi Comey fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings var birt í fjölmiðlum í kvöld en hann á að bera vitni fyrir henni á morgun. Í ávarpinu kemur fram að Trump bað Comey um að sverja sér hollustu sína og þrýsti á hann um að láta rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump, falla niður.

Comey sagði hins vegar einnig að hann hefði sagt Trump að hann væri ekki til rannsóknar í þrjú skipti. Því hélt Trump sjálfur fram í uppsagnarbréfinu sem hann sendi Comey þegar hann rak hann vegna rannsóknarinnar á meintum tengslum framboðs hans við Rússa.

Sjá einnig:Trump krafðist hollustu Comey og vildi fella niður rannsókn

Því segir Marc Kasowitz, lögmaður Trump, að forsetinn telji að framburður Comey „réttlæti hann algerlega og fyllilega“ í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

„Forsetinn er ánægður með að herra Comey hafi loks staðfest opinberlega skýrslur sem hann gaf í einrúmi um að forsetinn hafi ekki verið til rannsóknar í neinni rannsókn sem tengist Rússlandi,“ segir í yfirlýsingunni.

Á meðal þess sem kom fram í máli Comey er að Trump hafi ítrekað reynt að fá hann til að lýsa því opinberlega yfir að forsetinn væri ekki til rannsóknar. Það vildi Comey ekki gera, meðal annars vegna þess að þá hefði FBI borið skylda til að leiðrétta það ef kastljósið beindist síðar að forsetanum.

Þingforsetinn telur óviðeigandi að krefjast hollustu af forstjóra FBI

Aðrir telja orð Comey hins vegar sýna fram á að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með því að þrýsta á forstjóra FBI um að láta rannsókn á samstarfsmanni sínum niður falla.

Paul Ryan, þingmaður Repúblikanaflokksins og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði að það væri „augljóslega“ óviðeigandi að forseti skuli krefjast hollustu við sig af forstjóra alríkislögreglunnar. Sagði hann sjálfstæði yfirmanna FBI mikilvægt.

Aftur á móti telur Chris Collins, fulltrúadeildarþingmaður Repúblikana frá New York, að gjörðir Trump hafi verið fullkomlega viðeigandi og ekki jaðra við neitt sem gæti kallast hindrun á framgangi réttvísinnar samkvæmt AP-fréttastofunni.

Comey kemur fyrir þingnefndina á morgun. Þegar ávarpi hans sem hefur þegar verið birt lýkur munu nefndarmenn úr báðum flokkum spyrja forstjórann fyrrverandi spurninga um samskipti hans og Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×