„Það er hrikalega súr stemming inn í klefa, mér fannst við eiga meira skilið út úr þessum leik og fyrir mér tapaði betra liðið í dag,“ sagði Emil Ásmundsson, miðjumaður Fylkis, svekktur að leikslokum eftir 0-1 tap gegn FH í kvöld.
FH var sterkari fyrstu mínúturnar en Fylkismenn stýrðu honum lengst af.
„Eftir færið hjá Arnari fengum við meiri trú á verkefninu. Þótt að við séum deild fyrir neðan okkur þá höfðum við trú á þessu. Við tókum gjörsamlega yfir leikinn,“ sagði Emil og hélt áfram:
„Við erum þéttir, kunnum að verjast og sækja og eigum fullt í öll þessi lið í efstu deild. Mér fannst einstaklingsgæðin ekkert vinna þennan leik, heppnin var með þeim í kvöld.“
Sjá einnig:Umfjöllun: Fylkir - FH 0-1 | Halldór Orri skaut FH í undanúrslitin
Emil sendi dómaratríóinu kalda kveðju að leikslokum.
„Mér fannst ranglega dæmdur leikaraskap á Valdimar hérna í seinni hálfleik þegar við eigum að fá víti, þar klikkaði reynslumikill dómari. Þetta var 100% víti, það var greinileg snerting og þetta átti sér stað inn í teignum.“
Fylkismenn voru alls ekki verri aðilinn í kvöld.
„Þetta sýndi bara að við eigum heima í deild þeirra bestu og ekkert neitt í botnbaráttu. Við eigum roð í öll þessi lið og vonandi verður þetta eldsneyti fyrir okkur í komandi leiki,“ sagði Emil.
Emil: Betra liðið tapaði í kvöld
Kristinn Páll Teitsson skrifar
