Erlent

Þrír fréttamenn hætta hjá CNN vegna fréttar um Trump og Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Anthony Scaramucci tók afsökunarbeiðni CNN vel og sagði fréttastöðina hafa gert það rétta í stöðunni.
Anthony Scaramucci tók afsökunarbeiðni CNN vel og sagði fréttastöðina hafa gert það rétta í stöðunni. Vísir/EPA
Bandaríska sjónvarpsfréttastöðin CNN hefur samþykkt uppsagnir þriggja fréttamanna vegna fréttar um rannsókn á fundi samstarfsmanns Donalds Trump með framkvæmdastjóra rússnesks fjárfestingasjóðs. CNN dró frétt sína til baka þegar í ljós kom að veigamikil atriði stóðust ekki.

Fréttin fjallaði um að Anthony Scaramucci, sem vann að undibúningi valdatöku Trump, væri til rannsóknar hjá leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings vegna fundar sem hann átti með framkvæmdastjóra rússneska fjárfestingasjóðsins Direct Investment Fund (RDIF).

Í ljós kom hins vegar að sjóðurinn var ekki hluti af rússneska bankanum Vnesheconombank eins og fullyrt hafði verið í frétt CNN fimmtudaginn 22. júní. Washington Post segir að þetta hafi skipt verulegu máli þar sem Vnesheconombank er á lista fjármálastofnana sem bandarísk stjórnvöld beita refsiaðgerðum.

Stóðst ekki ritstjórnarleg viðmið CNN

Eftir að aðrir miðlar eins og öfgahægrisíðan Breitbart og rússneska fréttasíðan Sputnik höfðu birt fréttir um að ekkert væri hæft í frétt CNN dró sjónvarpsstöðin hana til baka á föstudag, meðal annars með þeim orðum að hún hefði ekk staðist ritstjórnarleg viðmið CNN. Bað stöðin Scaramucci afsökunar á fréttinni.

The Guardian segir að ekki sé ljóst hvað var nákvæmlega rangt í fréttinni eða hvort að CNN muni halda áfram að fjalla um málið.

Í kjölfarið samþykkti CNN uppsagnir þriggja fréttamanna sem unnu að fréttinni: Thomas Frank, fréttamannsins sem vann fréttina, Erics Lichtblau, aðstoðarritstjóra Washington-skrifstofu CNN og Lex Harris, yfirmanns rannsóknarteymis CNN.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað sakað CNN um að birta gervifréttir um sig, oft þó vegna frétta sem hafa reynst fullkomlega réttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×