Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti í gær efasemdum sínum um hlutleysi Roberts Mueller sem rannsakar meint afskipti Rússa af forsetakosningum vestra og möguleg tengsl þeirra við framboð Trumps.
Í viðtali við Fox News sagði Trump vináttu Muellers við James Comey, sem Trump rak úr embætti yfirmanns FBI, vera truflandi. Bíða þyrfti og sjá hvort hann færi fram á að Mueller myndi stíga til hliðar. Hann sagði þó að Mueller væri heiðarlegur og góður maður.
Mueller var skipaður sérstakur ráðgjafi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna við rannsóknina í kjölfar brottreksturs Comeys.
Fjölmiðlar segja að Mueller rannsaki hvort Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar en sjálfur hefur Mueller ekki tjáð sig um það.
Trump segir rannsakanda ekki hlutlausan
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
