Erlent

May gerir ESB-ríkjum tilboð í innflytjendamálum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í Brussel í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í Brussel í dag.
Ríkisborgarar innan Evrópusambandsins, sem hafa búið í Bretlandi í fimm ár eða lengur, gætu fengið jöfn réttindi á við breska ríkisborgara. Þetta sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, en hún gerði grein fyrir tillögum sínum vegna úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu í Brussel, höfuðborg Belgíu, í dag. BBC greinir frá.

May var stödd á ráðstefnu Leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Brussel í dag og gerði þar grein fyrir stefnu Bretlands vegna stöðu innflytjenda Evrópusambandsríkja í Bretlandi. May sagði að ný staða Evrópusambands-innflytjenda myndi veita þeim réttindi til áframhaldandi viðveru í Bretlandi. Þá verður þeim enn fremur veittur aðgangur að heilbrigðis- og menntunarþjónustu eftir að Bretland segir sig að fullu úr Evrópusambandinu.

Samningurinn verði að vera sanngjarn fyrir báða aðila

Forsætisráðherrann ítrekaði þó að samningurinn yrði ekki einhliða. Hún sagði þessi réttindi innflytjenda innan Evrópusambandsins aðeins tryggð ef breskir ríkisborgarar fengju sömu réttindi í Evrópusambandsríkjum.

„Staða Bretlands stendur fyrir sanngjarnt og alvarlegt tilboð, tilboð sem á að veita fólki, sem hefur komið sér fyrir í Bretlandi, eins mikinn stöðugleika og hægt er.“

Þeir sem hafa flust eða munu flytjast til Bretlands á tveggja ára útgöngutímabilinu, þ.e. frá því að Bretland hóf formlega útgöngu úr Evrópusambandinu í mars 2017  og þangað til útgöngunni verður formlega lokið í mars 2019, munu fá ákveðið „aðlögunartímabil“ til að ganga tryggilega frá innflytjendastöðu sinni.

Bæði Bretland og Evrópusambandið hafa sagst vilja komast að samkomulagi um stöðu um 3,2 milljóna ríkisborgara Evrópusambandsríkja sem búa í Bretlandi og um 900 þúsund breskra ríkisborgara sem búa utan Bretlands. Ekkert hefur þó enn verið staðfest í þeim efnum.


Tengdar fréttir

Brexit efst á baugi í stefnuræðu drottningar

Frumvarp sem gerir samevrópsk lög að breskum er á meðal átta frumvarpa sem tengjast Brexit sem Elísabet drottning tilkynnti um í stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar Bretlands.

Brexit-viðræður kortlagðar í Brussel

Breska samninganefndin hefur fallist á að geyma umræður um frjáls viðskipti þangað til búið er að finna lausn á kostnaði við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu en slitaviðræður Bretlands við Evrópusambandið hófust í dag í Brussel. Utanríkisráðherra Íslands segir mikilvægt að Íslendingar gæti hagsmuna sinna í kjölfar samninga Bretlands og Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×