Körfubolti

Butler gaf upp símanúmerið sitt á blaðamannafundi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nú er bara að prófa að hringja.
Nú er bara að prófa að hringja. mynd/skjáskot
Jimmy Butler, þrefaldur stjörnuleikmaður NBA og landsliðsmaður Bandaríkjanna í körfubolta, var afar óvænt skipt frá Chicago Bulls til Minnesota Timberwolves daginn sem nýliðavalið fór fram.

Chicago ákvað að taka nýja stefnu með félagið og spila á yngri leikmönnum en Butler hefur fengið sinn skerf af gagnrýni undanfarna daga eftir leikmannaskiptin.

Því hefur verið haldið fram að hann sé ekki góður í klefanum, sé enginn leiðtogi og alls ekki leikmaður sem hægt sé að byggja gott lið í kringum. Antonie Walker, fyrrverandi leikmaður Boston Celtics sem er frá Chicago, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt Butler harðlega.

Butler var spurður út í þessa gagnrýni á fyrsta blaðamannafundinum sem leikmaður Timberwolves sem fram fór í Mall of America. Þar fór hann óhefðbundnar leiðir í að svara fyrir sig og gaf upp símanúmerið sitt.

„Þetta truflar mig ekkert. Það mátti alveg búast við þessu. Það þarf einhver að taka þetta á sig og ég skal vera sá maður,“ sagði Butler.

„Það hafa allir rétt á sínum skoðunum en að því sögðu þá er síminn minn í rassvasanum á þessari stundu. Ef einhver hefur eitthvað við mig að segja þá er bara að hringja í 773-899-6071. Ef þið viljið viðtal þá er bara um að gera og hringja,“ sagði Jimmy Butler.

Michael Smith og Jemele Hill, íþróttafréttamenn á ESPN, tóku Butler á orðinu og reyndu að hringja í hann í beinni útsendingu en fengu bara símsvara.

Myndband af fundinum og tilraunum Michael og Jemele til að hringja í Butler má sjá í myndbandinu hér að neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×