Í Fésbókarfærslu á vef lögreglunnar kemur fram að vikan hafi verið annasöm enda gestkvæmt í Eyjum vegna mótsins. Alls voru 112 lið skráð til leiks á mótið en sjö leikmenn eru í hverju liði auk varamanna auk þess sem foreldrar fjölmenna á mótið.
„Nóg var að gera í að sinna umferðarmálum enda fjöldi bifreiða á götum bæjarins. Þá var eitthvað um að lögreglan aðstoðaði fólk sem hafði slasast við hinar ýmsu aðstæður,“ segir í færslunni.
„Eftir Orkumótið fékk lögregla upplýsingar um að börn hefðu verið sett í farangursrými bifreiða og ferjuð þannig á milli staða. Slíkt athæfi er að sjálfsögðu algerlega óboðlegt og stórhættulegt og eflaust ekkert foreldri sem myndi samþykkja slíka meðferð á sínu barni.“
Þá þurfti lögreglan að sinna fleiri málum, meðal annars eina nóttina þegar upp úr sauð á milli dyravarða og gests á skemmtistað í bænum. Kallaði gesturinn til lögreglu.
Meðal gesta á Orkumótinu var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem fylgdist með sínum mönnum í Stjörnunni en sonur hans æfir með Garðabæjarliðinu.