Innlent

Telja sig vita hver maðurinn er

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Víðtæk leit stendur yfir.
Víðtæk leit stendur yfir. vísir/magnús hlynur
Lögregla telur sig nú vita með nokkurri vissu hver maðurinn sem féll í Gullfoss er. Bílar á svæðinu voru skoðaðir og út frá því fann lögregla út nafn mannsins. Þó er enn unnið að staðfestingu, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi.

„Við teljum okkur farin að vita það, já. Það er ákveðin skoðun í gangi,“ segir Sveinn Kristján í samtali við Vísi, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um það að svo stöddu.

Aðspurður segir hann að búið sé að yfirfara nokkuð stórt svæði. „Þetta hefur gengið ágætlega hjá okkur, þó leitin hafi engan árangur borið enn. Það er búið að leita vel frá fossinum og niður, en það þarf að fara yfir svona svæði aftur og aftur.“

Víðtæk leit stendur yfir af manninum sem féll í Gullfoss á fimmta tímanum í dag. Alls eru 145 björgunarsveitarmenn við störf, en notast er við þyrlu Landhelgisgæslunnar, bíla, báta, kafbáta, dróna og annars konar búnað. Ætlunin er að halda leitinni áfram fram á nótt og aftur í fyrramálið, beri hún ekki árangur. Aðstæður eru mjög erfiðar, að sögn Landsbjargar.


Tengdar fréttir

Maður féll í Gullfoss

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út eftir að tilkynning barst um að maður hefði verið fallið í Gullfoss nú á sjötta tímanum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×