Erlent

Lík svissneskra hjóna fundust eftir 75 ár undir jökli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Munir í eigu hjónanna fundust á vettvangi, þar á meðal föt og skór.
Munir í eigu hjónanna fundust á vettvangi, þar á meðal föt og skór. Vísir/afp
Tvö lík fundust á jökli í Sviss í síðustu viku en þar eru talin vera komin í leitirnar hjónin Marcelin og Francine Dumoulin. Þau hurfu á svæðinu árið 1942 en BBC greindi frá málinu.

Dumoulin-hjónin héldu af stað til að vitja kúa sinna í svissnesku Ölpunum í ágúst árið 1942. Þau sneru aldrei aftur en talið er að þau hafi dottið ofan í sprungu í Tsanfleuron-jökli.

Yngsta dóttir hjónanna, sem nú er 79 ára, sagðist ætla að gefa foreldrum sínum „jarðarförina sem þau ættu skilið.“

„Við eyddum allri ævi okkar í að leita að þeim,“ sagði Marceline Udry Dumoulin í viðtali við blaðið Lausanne daily Le Matin.

„Ég get sagt það að eftir 75 ára bið veita þessar fréttir mér djúpstæða ró,“ sagði dóttirin enn fremur.

Enn á eftir að greina erfðaefni úr líkunum til að staðfesta að um sé að ræða Dumoulin-hjónin. Starfsmaður skíðalyftufyrirtækis fann líkin á Tsanfleuron-jöklinum í síðustu viku en þá fundust einnig munir sem taldir eru hafa verið í eigu hjónanna. Þar á meðal voru bakpoki, glerflaska og bæði kvenmanns- og karlmannsskór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×