Innlent

Dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barnabörnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Héraðsdómur Norðulands eystra er á Akureyri.
Héraðsdómur Norðulands eystra er á Akureyri. Vísir/Pjetur
Nær áttræður karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur barnabörnum sínum. Stúlkurnar voru á aldrinum 6-14 ára þegar brotin áttu sér stað en maðurinn braut á stúlkunum yfir margra ára tímabil. Þá var honum gert að greiða tveimur þeirra miskabætur, samtals 3,6 milljónir króna.

Í ákæru segir meðal annars að maðurinn hafi snert kynfæri einnar stúlkunnar, talað til hennar á ósiðlegan og kynferðislegan hátt og brotið á henni á annan kynferðislegan hátt án þess að hafa við hana samræði. Hafi maðurinn ýmist vakið stúlkuna þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu til að brjóta gegn henni eða brotið gegn henni á daginn. 

Maðurinn var sakaður um að hafa brotið gegn hinum stúlkunum tveimur í lengri tíma, svo til alla grunnskólagöngu þeirra. Sýndi hann þeim klámmyndbönd, fróaði sér fyrir framan þær og hafði við þær „önnur kynferðismök en samræði“. 

Ljóst er að brot mannsins eru umfangsmikil. Í dómnum yfir honum kemur fram að maðurinn, sem er nær áttræður, sé fjölveikur og noti fjölda lyfja. Litið var til aldurs hans við ákvörðun refsingar.

Ákærði var fundinn sekur um alvarleg kynferðisbrot gegn þremur barnabörnum sínum og gert að sæta fangelsi í fjögur ár fyrir brot sín. Tvær stúlknanna kröfðust bóta af manninum, hvor um sig 1,8 milljóna króna, og var manninum gert að greiða umbeðnar upphæðir. Þá greiðir hann einnig allan sakarkostnað, rúmar 3 milljónir króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×